18.2.2009 | 22:28
Veikindi
Það er alltaf erfitt að horfa upp á börnin okkar lasin og enn erfiðara þegar þau eru langt frá og við getum lítið fyrir þau gert til að þeim líði betur. Ekki bætir úr skák þegar þau eru í heima vist og húka inn á herbergi sem er ekki mikið stærra en kústaskápur.
Dóttirin er búin að vera lasin, magakveisa, mikill höfuðverkur, listarleysi, verkjar í allan kroppinn og mikil þreyta. Hún er búin að vera undir töluverðu álagi, endalaus próf, mikill upplestur og lítill svefn. Við ákváðum að heimsækja hana sl laugardag (dag Valentínusar) í heimavistina og fórum með hana út að borða. Það hýrnaði yfir henni við að sjá mömmu og pabba og litla bróðir sem er nú bara ekkert lítill lengur. Hann var nú heldur óhress með að þurfa að fara með okkur alla þessa leið, en það tekur okkur rétt undir 4klst að aka þessa 386 Km. Leiðin er afskaplega falleg, en eftir að hafa keyrt þetta nokkrum sinnum skil ég vel að hann sé orðin þreyttur á þessu. Við gistum eina nótt og fórum svo aftur heimleiðis fljótlega upp úr hádeginu næsta dag (sunnudag) þar sem enn meiri próflestur lá frammi fyrir henni og tvö próf á mánudaginn. Seint um kvöldið fengum við tölvupóst frá henni að nú væri hún komin með töluverðan hita og hríðskalf og hreinlega að drepast. "mamma komdu og hjúkraðu mér". Hún fór í fyrra prófið en hafði varla mátt til að ganga á milli húsa svo leiðin lá til skólalæknisins sem tók blóðprufu og þá kom í ljós að hún er með magavírus og "monó"(mononucleosis).
Það er skrýtið að ég man ekki til þess að hafa heyrt fólk veikjast af monó þegar ég var unglingur og bjó heima (á Íslandi), en utanlands er þetta nokkuð algengt sérstaklega í ungu fólki á gagnfræðaskóla og framhaldsskóla aldri. Nú útskýrðist auðvitað þessi ofsa þreyta. Upp úr hádeginu í gær hringdi hún í mig og bað mig um að koma og sækja sig. Hún er í sjúkrafríi fram yfir helgi og við sjáum til hvað verður eftir það, en hún má ekki stunda neinar íþróttir eða reyna á sig í 6-8 vikur því það er hætta á að miltað stækki og springi við áreynslu. Ég var rétt komin heim úr vinnu á sjúkrahúsinu og það er ekki að spyrja, ég fór tafarlaust af stað, en verð að viðurkenna að ég sá mikið eftir að hafa ekki skipt um skó áður. Ég er í íþróttaskóm í vinnunni og að vera í þéttum, innilokuðum skóm frá kl. 7 um morguninn til kl 9 um kvöldið er nóg til að fæturnir mínir æpi. 4 tímar niður eftir, stoppaði ekki meir en hálftíma til að hjálpa henni með dótið út í bíl og setja bensín á bílinn og jú ég keypti mér Pepsí og Taco til að halda mér vakandi á leiðinni til baka og síðan aðrir 4 tímar til baka. Við vorum komnar heim rétt fyrir kl. 9 í gærkveldi. Sem betur fer gat hún sofið smávegis í bílnum.
Ég var sem lurkum lamin í morgun og auðvitað svaf ég yfir mig. Sonurinn sem er venjulega góður með að vakna af sjálfsdáðum kom of seint í skólann. Ekki veit ég afhverju, því ekki var hann með í ferðinni. Í stað þess að þjóta í fötin og út, fór hann í sturtu eins og venjulega fékk er að borða (þakklát fyrir það) og svo í skólann. Jú það er alltaf gott að vera þrifalegur. Eins og hann segir, fyrst maður er seinn að annaðborð því ekki fara í sturtu. Ég er afar þakklát fyrir að vera búin að fá dótturina heim og geta annast hana á meðan hún er svona slöpp, enda sefur hún mikið og hefur lítið úthald þessa dagana, en þetta lagast. Tekur bara sinn tíma.
Um bloggið
Hitt og þetta
Nýjustu færslur
- 1.1.2012 Ísold Ylfa nýjasta stjarnan
- 7.9.2011 Gott að fá samkeppni
- 4.1.2011 Íslandsvinur?
- 9.12.2010 Ósvífnir óþokkar
- 11.11.2010 Ekki felldi ég karlinn minn....
- 25.10.2010 Jafnrétti ?
- 17.10.2010 Trú og glaðlyndi
- 14.10.2010 Dagurinn sem heimurinn stóð kyrr.
- 26.8.2010 áhrif lyfja?
- 17.8.2010 Og hvað ætlar Icelandair að gera?
- 6.8.2010 Af hverju NY?
- 5.8.2010 Bíll fyrir blinda
- 12.11.2009 Fólk þarf að gera sér grein fyrir hversu alvarlegt þetta er.
- 3.6.2009 haga sér eins og óþekk smábörn
- 19.4.2009 Ekki má gleyma skotárásinni í Va.Tech og nýlega var nemandi ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er mikið álag á þér núna, og oft vill margt hellast yfir mann í einu. Ég vona bara ð dóttir þín fái góðan bata, en það er ekkert grin að fá Móno á þessum aldri, þar sem líkaminn er lengi að vinna úr þessu, og eins og þú segir blóðkornaframleiðslan. Þú varst heppin að geta farið til hennar, og kraftur í þér að aka þetta sjálf. Það er gott að hún er heima. Þú ert greinilega umhyggjusöm móðir. En skólar í USA örugglega miklu strangari á þessum málum en við. Hérna er þetta einum of frjálst.
Gangi ykkur vel.
(Eitt barnabarn mitt fékk Mononucleosis, í kjölfar veirusýkinga, og varð hann talsvert veikur, það er ekkert grín að fá þetta, en hún er heppin að hafa þig.)
Sólveig Hannesdóttir, 19.2.2009 kl. 20:38
Einkyrningasótt! Ég held ég hafi bara aldrei vitað um neinn sem hefur fengið þetta.
Sjálfri finnst með krakkarnir hérna í kringum mig á skólanum alltof kærulaus í umgengni þegar þau eru veik, valsandi um alla ganga og setjast svo við hliðina á manni og segja frá hvað þau séu veik. Ég hegðaði mér eins og holdsveik á meðan ég var lasin og vísaði fólki frá mér í matsalnum.
Mikið er nú samt gott að það fékkst úr þessu skorið og að hún skyldi fá frí. Batakveðjur.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 20.2.2009 kl. 21:03
Vona að allt sé að mjakast hjá ykkur, Erna. Kveðja frá mér. SH.
Sólveig Hannesdóttir, 20.2.2009 kl. 21:50
Þakka þér fyrir elsku Sólveig mín. Ég vona að barnabarnið þitt hafi náð sér að fullu eftir þessi veikindi. Mononucleosis getur verið mjög erfiður sjúkdómur. Forstöðukonan á deildinni minni var að segja mér að dóttir sín hafi fengið móno þegar hún var unglingur og í rauninni aldrei náð sér að fullu. Þreytist mikið fyrr en hún hafði gert fyrir veikindin. Eldri sonur minn fékk þetta líka á sínum tíma og var mjög slappur og þreyttur en ég man ekki til að hann hafi verið með eins mikla verki og hún Andrea mín hefur verið með.
Andrea mín var svo slæm á miðvikudaginn og átti erfitt með andadrátt svo ég dreif hana til heimilislæknisins. Læknirinn sagði að miltað væri útþanið og ýtti undir rifbeinin. Hún setti hana á stera sem eiga að taka niður bólgur og verður á þeim fram á þriðjudag.
Sem betur fer finnst mér hún aðeins að braggast, en hún er samt slöpp og úthalds lítil. Hún hefur verið að reyna að lesa og gera heimavinnuna en bara lítið í einu.
Ólöf mín, það er rétt að þetta heitir líka Einkyrningasótt og svo hef ég líka heyrt kossasótt. Okkur dettur helst í hug að hún hafi fengið þetta í leikfimissalnum í skólanum. Allskonar hendur á íþróttatækjunum, sviti og annar óþverri. Maður gengur víst með vírusinn í um það bil mánuð áður en einkennin koma í ljós. Þakka ykkur fyrir bata kveðjurnar.
Góða helgi
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 20.2.2009 kl. 23:25
Óska Andreu góðs bata og farið öll vel með ykkur!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.2.2009 kl. 04:15
Takk fyrir kæra frænka. Mér sýnist sterarnir hafi góð áhrif á hana, en hún er samt ansi slöpp og sefur mikið. Gott að sjá að þú sért komin úr bloggfríinu. Innileg kveðja til ykkar allra.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 21.2.2009 kl. 12:27
Þarf að hvílast, vel. Þetta er svo mikið álag fyrir líkamann. Drekka vel, en lítið í senn, eins og þú veist sem hjúkrunarfræðingur. Batakveðjur til ykkar.
Sólveig Hannesdóttir, 22.2.2009 kl. 12:02
Mikið vildi ég að svo væri Sólveig mín, en til að fyrirbyggja misskilning er ég ekki hjúkrunarfræðingur aftur á móti vinn ég á sjúkrahúsinu hér í bæ við að taka myndir af ungabörnum áður en þau fara heim með mæðrum sínum. Við þurfum auðvitað að ganga í gegnum sérstaka þjálfun áður. Hitt er annað að ég byrjaði í hjúkrun fyrir nær 30 árum en kláraði aldrei vegna þess að maðurinn minn tók við starfi í þýskalandi á þeim tíma og fyrsta barnið okkar fæddist skömmu áður þannig að námið var lagt til hliðar sem ég auðvitað sé mikið eftir nú.
Þakka þér fyrir umhyggjuna gagnvart henni Andreu minni. Hún er mun betri miðað við hvernig hún var í byrjun vikunnar. Hún á að fara aftur til læknisins á þriðjudaginn, en hún fer ekkert aftur í skólann þessa vikuna. Það borgar sig ekki að reyna of mikið á líkamann á meðan ónæmiskerfið er vanmátta
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 22.2.2009 kl. 16:42
Mikið er það gott að Andrea er á batavegi, ég hef verið að hugsa til ykkar í gær og í morgunn.
Ekki sjá eftir þinni ákvörðun, fyrir 30 árum!!!!!!!!!
Sólveig Hannesdóttir, 22.2.2009 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.